Þátttaka

Rannsókn við Háskóla Íslands

Þátttaka í rannsókninni fólst í eftirfarandi sex þáttum:

1. Spurningalisti

Spurningalistanum var ætlað að varpa ljósi á ýmsa þætti sem tengjast lifnaðarháttum, s.s. íþrótta- og heilsurækt, líkamlegt ástand, skólamál, lífsviðhorf, sem og líkamlega og andlega líðan þátttakenda.

2. Hreyfi– og svefnmælingar

Svokallaðir hröðunar- og svefnmælar (e. Accelerometers) voru notaðir til að meta hreyfingu og svefn þátttakenda. Mælarnir eru litlir kubbar á stærð við tölvuúr. Þegar kubburinn var virkjaður taldi hann sveiflurnar sem pendúllinn sveiflast, innan ákveðins tíðnibils, og setti í minni á mínútu fresti. Minnið getur safnað slíkum talningum í allt að 21 dag. Kubbarnir voru bornir á sama hátt og armbandsúr á vinstri úlnlið í 7 daga samfellt. Einnig yfir nótt eða þegar farið var í sund, sturtu eða bað. Mælarnir voru settir á við fyrstu heimsókn í Hjartavernd (í upphafi rannsóknar).

3. Blóðtaka

Blóðprufa var tekin eftir föstu og framkvæmd þannig að stungið var í bláæð einni stungu í olnbogabót og teknir samtals 10 ml í 3 glös. Fyrir stungu var búið að deyfa húð með kremi (emla). Heildarkólesteról, HDL, þríglýeríð, insulín, CRP, D-vítamin og glúkósi voru mæld. Ef blóðprufur reyndust óeðlilegar samanborið við viðmið var haft samband við viðkomandi. Að lokinni blóðprufu fengu þátttakendur næringu (ávaxtasafa og brauð).

4. Beinþéttnimæling

DXA-mæling sagði bæði til um beinþéttni og fitudreifingu í líkamanum. Mælingin tók um það bil 5 mínútur á hvern einstakling. Þátttakendur lágu á bekk á meðan rannsókninni stóð og líkaminn var skannaður. Við beinþéttnimælinguna var notaður röntgengeisli, en geislun vegna þátttöku í rannsókninni var sambærileg við 2–3 daga náttúrlega bakgrunnsgeislun á Íslandi. Náttúruleg bakgrunnsgeislun er í öllu okkar umhverfi. Geislunin kemur frá himingeimnum, jarðskorpunni og geislavirkum efnum í líkama okkar. Á Íslandi er geislunin mun minni en annarsstaðar á Norðurlöndum. Miðað við þá geislun sem hér um ræðir er það mat Geislavarna ríkisins að áhætta vegna þátttöku í rannsókninni sé hverfandi. Þessi verkþáttur var framkvæmdur í Hjartavernd.

5. Þrekpróf

Til að meta þrek voru þátttakendur beðnir um að hjóla á þrekhjóli með stigvaxandi ákefð og fylgst var náið hjartslætti þeirra. Prófið var hámarkspróf þar sem þátttakendur hjóluðu þar til þeir gátu ekki (eða vildu ekki) hjóla lengur. Þrekprófið tók að meðaltali 15-20 mínútur.

6. Blóðþrýstingur

Þátttakandi sat uppréttur í þægilegum stól með fætur á gólfi í 3–5 mínútur fyrir mælingu og var í sömu stöðu þegar mælt er. Hafður var stuðningur undir upphandlegg sem var ber upp að öxlum og í hjartahæð. Mælt var þrisvar sinnum. Þessi verkþáttur var framkvæmdur á íþróttastofu Háskóla Íslands.

7. Hugræn verkefni

Þátttakendur þreyttu tvö hugræn verkefni sem mældu annars vegar minni (e. n-back) og hins vegar athygli (e. Posner cue-target). Prófin voru stutt (samtals um 15 mínútur) og fengu þátttakendur munnlegar leiðbeiningar ásamt því að fá að prufukeyra stutta útgáfu af hverju verkefni áður en framkvæmdin hófst. Hugrænu verkefnin voru þreytt á tölvu og voru þátttakendur með hljóðeinangandi heyrantól til skynja mini hávaða.

Þátttökuskólar

Eftitrtaldir framhaldsskólar tóku þátt í verkefninu árið 2017:

Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskólinn í Mosfellsbæ, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Flensborg, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við sund, Tækniskólinn og Verslunarskóli Íslands.