Hlaðvarp

Heilsuhegðun ungra Íslendinga

Heilsuhegðun ungra Íslendinga er nýtt vísindahlaðvarp um heilsu og lifnaðarhætti ungs fólks hér á landi. Hlaðvarpið byggir á samnefndri langtímarannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands. 

Hlaðvarpið er samtalsvettvangur fræðimanna og framhaldsskólanema og hugsað sem mikilvægur hluti þekkingarmiðlunar. Í hverjum þætti eru fengnir til samtals vísindamenn sem koma að rannsókninni og ræða þeir niðurstöður sínar á mannamáli við ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Hver þáttur er 45 til 60 mínútur að lengd og eru þeir hugsaðir fyrir alla þá sem hafa áhuga á heilsu en ekki hvað síst fyrir ungt fólk og foreldra.

Fyrsti þáttur

Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er rætt við forvígismann verkefnisins, Erling Jóhannesson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði. Hann fjallar um mikilvægi þess að huga að heilsunni, gildi hreyfingar, hvíldar og svefns og einnig um hvernig rannsóknarverkefnið varð til. Erlingur greinir einnig frá hvernig hugmyndin að hlaðvarpinu varð til og hvað verður þar á dagskrá auk margs annars.

Þátturinn á Spotify

Annar þáttur

Í öðrum þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga eru svefn, hreyfing og lifnaðarhættir ungs fólks til umræðu. Það er dr. Vaka Rögnvaldsdóttir lektor við Háskóla Íslands sem spjallar um hver staðan er í þessum málum og um þá þætti sem hafa áhrif á svefn og hreyfingu við þá Jökul Þór Ellertsson og Baldur Steindórsson úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Sömuleiðis fjallar Vaka um hvaða leiðir séu færar til að bæta svefn og heilsu.

Þátturinn á Spotify

Þriðji þáttur

Þriðji þáttur vísindahlaðvarpsins heilsuhegðun ungra Íslendinga er nokkurs konar framhald af öðrum þætti. Rúna Sif Stefánsdóttir doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands heldur áfram að fjalla um mikilvægi svefnsins, áhrif hans á einkunnir og hugræna frammistöðu svo eitthvað sé nefnt. Rúna Sif spjallar við þær Elfu Óskarsdóttur og Báru Ólafsdóttur um þær breytingar sem verða á unglingsárunum og tröppuganginn sem er á milli skólastiganna hér á landi.

Þátturinn á Spotify

Fjórði þáttur

Í fjórða þætti fjallar dr.  Ársæll Arnarson prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði um félagsleg líðan og heilsu. Þær Bára Björg Ólafsdóttir og Björk Bjarnadóttir úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ spjalla við hann um einelti, samfélagsmiðla og hvað það merkir að vera unglingur. Varpað er upp spurningum um hvernig efla megi og styrkja þessa mikilvægu heilsufarsþætti hjá ungu fólki í nútímaþjóðfélagi.  

Þátturinn á Spotify.

Fimmti þáttur

Í fimmta þætti er rætt um andlega líðan ungmenna, kyrrsetu og skjánotkun ungs fólks. Dr. Sunna Gestsdóttir lektor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Elfa Óskarsdóttir, nemi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, skiptast á skoðunum um hvern farið er að því að styrkja andlega heilsu. Tölvunotkun, skyndibiti og félagaþrýstingur er meðal þess sem ber á góma. 

Þátturinn á Spotify.

Umsjónarmenn og viðmælendur

Markús Þórhallsson, sagnfræðingur og útvarpsmaður, hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem framleitt er af Menntavísindasviði Háskólans. Tæknimaður er Gústav K. Gústavsson og Adam Switala, doktorsnemi í tónlist, samdi stefið.

Viðmælendur hlaðvarpsins eru þau Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði og stjórnandi rannsóknarinnar, Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, Sunna Gestsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, og Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði. Framhaldsskólanemendur koma úr Verslunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Háskóli Íslands styrkir gerð hlaðvarpsins úr nýjum styrktarsjóði sem snýr að samfélagsvirkni vísindamanna.