Hlaðvarp

Rannsókn við Háskóla Íslands

Heilsuhegðun ungra Íslendinga er nýtt vísindahlaðvarp um heilsu og lifnaðarhætti ungs fólks hér á landi. Hlaðvarpið byggir á samnefndri langtímarannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands. 

Hlaðvarpið er samtalsvettvangur fræðimanna og framhaldsskólanema og hugsað sem mikilvægur hluti þekkingarmiðlunar. Í hverjum þætti eru fengnir til samtals vísindamenn sem koma að rannsókninni og ræða þeir niðurstöður sínar á mannamáli við ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Hver þáttur er 45 til 60 mínútur að lengd og eru þeir hugsaðir fyrir alla þá sem hafa áhuga á heilsu en ekki hvað síst fyrir ungt fólk og foreldra.

Fyrsti þáttur

Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er rætt við forvígismann verkefnisins, Erling Jóhannesson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði.

Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði og forvígismaður verkefnisins. Erlingur er fæddur og uppalinn á Snæfellsnesi og á yfir þrjátíu ára gamalt Íslandsmet í 800 metra hlaupi. Hann er þeirrar skoðunar að menntaskólaárin séu mikill mótunartími í lífi hverrar manneskju. Hann segir brýnt að hlustað sé á raddir ungs fólks í meira mæli. Í þættinum fjallar Erlingur enn fremur um mikilvægi þess að huga að heilsunni, gildi hreyfingar, hvíldar og svefns og einnig um hvernig rannsóknarverkefnið og hlaðvarpið varð til.

Annar þáttur

  • Hefur svefninn löngum verið vanmetinn?
  • Hvers vegna sofa sumir mikið og aðrir lítið?
  • Hvaða áhrif hefur það á heilsuna að snúa sólarhringnum við?
  • Hvernig bætum við svefninn?

Í öðrum þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga eru svefn, hreyfing og lifnaðarhættir ungs fólks til umræðu. Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, spjallar um hver staðan er á þessum málum við þá Jökul Þór Ellertsson og Baldur Steindórsson, nemendur úr Menntaskólanum við Hamrahlíð. Vaka kláraði íþróttakennaranám og viðskiptafræði áður en hún hóf doktorsnám í íþróttafræði. Þar var Vaka sannarlega á heimavelli en hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á hreyfingu. Fljótlega í doktorsnáminu kviknaði svo áhugi hennar fyrir alvöru á svefnmynstri. „Svefninn er heillandi heimur og vinsælt rannsóknarefni. Svefn er hleðsla, við setjum saman minningar í svefni, gerum við vefi líkamans og byggjum okkur upp,“ lýsir Vaka.

Þriðji þáttur

  • Eru langtímarannsóknir mikilvægar?
  • Hver eru áhrif svefns á einkunnir?
  • Á að seinka klukkunni?
  • Eru A- og B-týpur – eru þær fræðilega viðurkenndar?

Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, spilaði lengi knattspyrnu hér heima og í Bandaríkjunum áður en hún hóf doktorsnám við Háskólann. Hún lauk meistaranámi í lýðheilsuvísindum og þar kviknaði áhugi hennar á svefnmynstri ungmenna. Í þriðja þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun unga Íslendingafjallar Rúna um mikilvægi svefns, áhrif hans á einkunnir og hugræna frammistöðu, svo fátt eitt sé nefnt. Rúna spjallar við þær Elfu Óskarsdóttur og Báru Ólafsdóttur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ um þær breytingar sem verða á unglingsárunum.

Fjórði þáttur

  • Hvers vegna er ungt fólk hvatvísara en fullorðnir?
  • Eiga ungir karlmenn erfiðara með ákvarðanatöku en ungar konur?
  • Af hverju mælist minna einelti á Íslandi en í öðrum löndum?
  • Hvenær gengur gott grín of langt?

Í fjórða þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga fjallar Ársæll Arnarson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, um félagsleg líðan og heilsu. Þær Bára Björg Ólafsdóttir og Björk Bjarnadóttir úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ spjalla við hann um einelti, samfélagsmiðla og hvað það merkir að vera unglingur. Varpað er upp spurningum um hvernig efla megi og styrkja þessa mikilvægu heilsufarsþætti hjá ungu fólki í nútímaþjóðfélagi.

Fimmti þáttur

  • Hvernig bætum við eigin líðan?
  • Hvað getum við lært af heimsfaraldri kórónuveirunnar?
  • Hvers vegna hefur kvíði og þunglyndi aukist meðal ungmenna?
  • Hversu óholl er kyrrseta fyrir heilsuna?
  • Hvernig aukum við hreyfingu í daglegu lífi?

Í fimmta þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga er rætt um andlega líðan, kyrrsetu og skjánotkun ungs fólks. Sunna Gestsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, og Elfa Óskarsdóttir, nemi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, skiptast á skoðunum um hvernig við styrkum andlega heilsu. Tölvunotkun, skyndibiti og félagaþrýstingur er meðal þess sem ber á góma. Rannsóknir Sunnu hafa einkum snúist um þrek, hreyfinu og andlega líðan. Sunna segir mikla viðhorfsbreytingu hafa átt sér stað í samfélaginu síðustu ár varðandi umræðu um andlega líðan. Aftur á móti hafi dregið úr hreyfingu og kyrrseta fólks almennt aukist.

Sjötti þáttur

  • Hver eru áhrif umhverfis á heilsu?
  • Hvað þýðir heilsa?
  • Á siðfræðin meira erindi við okkur nú en áður?
  • Er umhverfi okkar heilsusamlegra en það var?
  • Er ungt fólk í dag duglegt við að knýja fram breytingar?
  • Hafa samfélagsmiðlar straumlínulagað hugmyndir um hlutverk okkar?

Í sjötta þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga er rætt um áhrif umhverfis á heilsu. Ástríður Stefánsdóttir, læknir og dósent í siðfræði og Katrín Ólafsdóttir, doktorsnemi við HÍ ræða saman og skiptast á skoðunum um ólíka þætti í þjóðfélaginu sem hafa raunveruleg áhrif á líðan og heilsu fólks. Óljós hlutverk okkar í flókinni samfélagsgerð nútímans hefur meðal annars haft það í för með sér að vaxandi þungi er á siðfræðimenntun fagstétta.

Ástríður hefur lengi tekið virkan þátt í umfjöllun um siðferðileg álitamál í samtímanum á opinberum vettvangi. Katrín vinnur nú um stundir að viðamikilli rannsókn um upplifun geranda af ofbeldi í nánum samböndum.

Sjöundi þáttur

  • Hvernig eigum við að kynna mat?
  • Hvers vegna eigum við enn langt í land með að auka ávexta- og grænmetisneyslu?
  • Hvað er vistkerafæði?
  • Hverjir hafa áhrif á fæðuval?
  • Hvernig virkjum við öll skynfæri þegar við borðum?

Í sjöunda þætti vísindahlaðvarpsins Heilsuhegðun ungra Íslendinga eru mataræði, næring og heilsa til umræðu. Viðmælendur þáttarins eru Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði og Baldur Steindórsson, nemi við Menntaskólann í Hamrahlíð. Næring er rauður þráður í lífi okkar allra. Sterkustu áhrifavaldararnir þegar kemur að fæðuvali ungs fólks eru foreldrar. Þegar neikvæð fæðuhegðun er annars vegar þá benda rannsóknir til að vinir hafi meiri áhrif. Þau Anna Sigríður og Baldur velta því fyrir sér hvernig efla megi mataræði og meðvitund ungs fólks um hollan mat. Orkudrykkir, grænkerafæði, matvendni og unninn matur koma einnig við sögu.

Rannsóknir Önnu Sigríðar eru á sviði næringar, heilsu og lífshátta. Heilsuhegðun og þyngdarstjórnun eru meðal viðfangsefna þar sem horft er til heilsueflingar, forvarna og meðferðar. Hún hefur meðal annars unnið að rannsóknum á gildi skólamáltíða í grunnskólum á Norðurlöndum, heilsueflingu í framhaldsskólum og Heilsuskólanum – fjölskyldumiðaðri meðferð við offitu barna. Síðustu ár hefur Anna Sigríður meðal annars stýrt rannsóknunum Bragðlaukaþjálfun og UPRIGHT.

Umsjónarmenn og viðmælendur

Markús Þórhallsson, sagnfræðingur og útvarpsmaður, hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem framleitt er af Menntavísindasviði Háskólans. Tæknimaður er Gústav K. Gústavsson og Adam Switala, doktorsnemi í tónlist, samdi stefið.

Viðmælendur hlaðvarpsins eru þau Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði og stjórnandi rannsóknarinnar, Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, Vaka Rögnvaldsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, Sunna Gestsdóttir, lektor í íþrótta- og heilsufræði, Rúna Sif Stefánsdóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, Ástríður Stefánsdóttir, dósent í siðfræði, og Katrín Ólafsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði menntunar. Framhaldsskólanemendur koma úr Verslunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Háskóli Íslands styrkir gerð hlaðvarpsins úr nýjum styrktarsjóði sem snýr að samfélagsvirkni vísindamanna.