Markmið rannsóknarinnar var að skoða stöðu og langtímabreytingar á holdarfari, hreyfingu, svefni, þreki, andlegum þáttum og lifnaðarháttum íslenskra ungmenna við 7 og 9 ára aldur og síðan aftur við 15 og 17 ára aldur. Metið var samband þessara þátta við fjölmarga heilsufarsþætti og námsárangur. Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka m.a. svefnvenjur og hreyfivirkni þessar ungmenna og skoða mögulegar breytingar á þeim þáttum. Framkvæmdar voru fjölmargar mælingar þegar þátttakendur voru á sextánda aldursári og svo aftur að tveimur árum liðnum.
Hverju höfum við komist að?
Helstu niðurstöður mælinga við 15 ára aldur sem framkvæmdar voru vorið 2015.
Hreyfing, þrek og íþróttaiðkun
> Um 70% ungmenna stunduðu íþróttir með íþróttafélagi og ekki marktækur munur milli kynja.
> Um 43% þátttakenda voru í skipulögðu íþróttastarfi eða hreyfingu ≥6 klst á viku.
> Fleiri drengir stunduðu íþróttir eða hreyfingu skv. spurningalista ≥6 klst á viku.
> Stúlkur hreyfðu sig meira á frídögum en drengir (mælt með hröðunarmælum).
> Ekki var kynjamunur á hreyfingu á skóladögum (mælt með hröðunarmælum).
Svefnvenjur
> Íslensk ungmenni fara seint að sofa (00:22) og sofa stutta nótt (06:20 klst) að meðaltali.
> Að meðaltali var heildarsvefntími á virkum dögum 6.2 klst. og um 7.3 klst um helgar.
> Aðeins 23% stúlkna og 20% drengja náðu viðmiðunarsvefni (8 klst.) á nóttu að meðaltali yfir vikuna.
> Jákvæð fylgni var milli breytileika á svefni og holdafars (fituprósentu).
Andleg líðan og skjátími
> Stúlkur greindu oftar frá einkennum um þunglyndi, kvíða og sálvefræn óþægindi en drengir (15-22% vs. 3-8%)
> Skjátími að meðaltali 5.8 klst./dag, hærri hjá drengjum en stúlkum (6.2 vs. 5.5)
> Minni skjátími og tíðari áköf hreyfing sýna tengsl við betra eigið mat á andlegri líðan.
> Þeir sem bæði segjast verja minni tíma við skjá og hreyfa sig oftar af ákefð koma best út í eigin mati á andlegri líðan.
> Meiri breytileiki sést á svefni þeirra nemenda sem greina frá meiri skjátíma og þeirra sem mælast með minni hreyfingu, sérstaklega meðal drengja.
Námsárangur
> Snemma að sofa er ávísun á betri námsárangur. (hér mætti setja tölur eins og hinum stöðunum)
> Meðalháttatími nemenda í 10. bekk yfir alla vikuna var 00:49 en strákar fóru að meðaltali seinna að sofa (00:59) miðað við stelpur (00:42).
> Háttatími hefði áhrif á einkunnir en þeir nemendur sem fóru fyrr að sofa að meðaltali yfir vikuna voru að skora hærra á samræmdu prófi miðað við samnemendur sína.
> Þetta sást einnig þegar skoðaðir voru aðeins skóladagar og því hefur háttatími á virkum dögum áhrif á námsárangur nemanda. Breytileiki í svefn ungmenna hefur neikvæð áhrif á einkunnir á samræmdu prófi en þeir sem fara að sofa og vakna á svipuðum tíma alla daga eru að fá hærri einkunnir að meðtaltali
Helstu niðurstöður mælinga við 17 ára aldur sem framkvæmdar voru vorið 2017. Í þessu yfirliti er fyrst og fremst dregnar fram breytingar frá mælingu 2015.
Hreyfing, þrek og íþróttaiðkun
> Hreyfing dróst saman um 13% milli áranna tveggja og þrek minnkaði um 2%.
> Hreyfing á virkum dögum dróst saman um 19% en engar breytingar urðu á hreyfingu um helgar.
> Þátttaka í íþróttum og/eða heilsurækt á eigin vegum dróst saman um 25% milli áranna tveggja.
> Um helmingur 17 ára ungmenna segjast stunda íþróttir eða hreyfa sig reglulega.
Svefnvenjur
> Svefnlengd unglinga styttist að meðaltali um 24 mín á nóttu milli 15 og 17 ára.
> Á skóladögum fóru unglingarnir seinna að sofa 17 ára miðað við 15 ára en ekki var marktækur munur á því hvenær unglingarnir fóru á fætur.
> Á þessum tveimur árum jókst breytileikinn enn frekar í svefni unglinganna.
Val á framhaldsskóla
> Nemendur í fjölbrautakerfi sváfu lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi.
> Nemendur í bekkjarkerfi fóru á fætur fyrr en nemendur í fjölbrautarkerfi.
> Engin tengsl fundust á milli vali á framhaldsskóla og breytingar á hreyfingu.
Andleg líðan og skjátími
> Um 12% fleiri drengir greindu frá einkennum um þunglyndi við 17 ára aldur samanborið við 15 ára aldur en ekki varð marktæk breyting hjá stúlkum á tímabilinu. (Þrek minnkar meira hjá strákum).
> Meiri breytileiki var á svefni þeirra nemenda sem greina frá meiri skjátíma og þeirra sem mælast með minni hreyfingu, sérstaklega meðal drengja.
Holdarfar
> Ofþyngd/offita – 14% við 15 ára aldur og 17% við 17 ára aldur.
> Strákar voru með lægri fituprósentu en stelpur en ekki var marktækur munur á líkamsþyngdarstuðli (LÞH).
Hugrænir þættir (minni og athygli)
> Unglingar sem sváfu stutt nóttina fyrir minnis og athyglispróf gekk verr á erfiðasta minnisprófinu miðað við þá unglinga sem sváfu lengur
> Ekki fundust tengsl á milli athygli og svefn nóttina fyrir hugrænu prófin
> Engin tengsl fundust á milli meðaltal svefns yfir nóttina og frammistöðu á hugrænu prófunum